Fjárfesting allra landsmanna
Af vettvangi Bændasamtakana 24. apríl 2024

Fjárfesting allra landsmanna

Höfundur: Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands.

Ég hef farið víða síðustu vikurnar og hitt mikinn fjölda fólks að máli. Á meðal viðmælenda minna skipa bændur í hinum ólíku búgreinum eðlilega stærsta hópinn. Á meðal annarra nefni ég fjölmarga samstarfsaðila bænda, t.d. úr vinnslu- og innflutningsgeiranum, neytendur í öllum landshornum, þingmenn og sveitarstjórnarfólk úr öllum flokkum, ýmsa blaðamenn og auðvitað starfsfólk okkar á skrifstofu Bændasamtakanna.

Trausti Hjálmarsson.

Ég hef ekki hitt einn mann – alls engan – sem ekki vill veg íslensks landbúnaðar sem mestan. Kannski eru einhverjir slíkir til en ég hef ekki rekist á þá á förnum vegi og engir slíkir heldur haft samband við mig. Þvert á móti heyri ég alls staðar mikla samkennd og hvatningu til okkar bænda að halda ótrauðir okkar striki. Þetta viðhorf er með öllu óháð ólíkum sjónarmiðum um einstaka þrætuepli á borð við verkferla Alþingis við breytingu á búvörulögum, fyrirkomulag ólíkra stuðningþátta samfélagsins við landbúnaðarframleiðslu o.s.frv. Okkur greinir e.t.v. á um leiðir en ekki markmið.

Það ríkir einfaldlega einhugur, einhvers konar órædd þjóðarsátt, um mikilvægi þess að standa vörð um starf bóndans og framlag hans til matvælagæða og fæðuöryggis landsmanna. Öllum er ljóst að atvinnugreinin fær aldrei þrifist án þess að búa að minnsta kosti við svipað regluverk og gildir í viðmiðunar- og samkeppnislöndum okkar beggja vegna Atlantsála og víðar um heim. Fólk er reiðubúið til slíks stuðnings, sem ég vil raunar kalla fjárfestingu fremur en styrkveitingar.

Við fjárfestum í menntakerfi okkar til þess að skapa verðmæti til framtíðar og jafna rétt barna og ungmenna eins og frekast er unnt. Við fjárfestum í heilbrigðiskerfinu til þess að tryggja öryggi okkar óháð efnahag. Við fjárfestum í fjölbreyttum innviðum sem ætlað er að skila samfélaginu arði með ýmsum hætti. Fjárfesting okkar og varðstaða um hágæðaframleiðslu íslenskra bænda úr gjöfulum auðlindum móður náttúru er grein af sama meiði. Og ábatinn er augljós. Meira að segja í beinhörðum peningum.

Þessi nýsprottni áhugi er engin tilvljun. Hann grundvallast á ýmsum þáttum sem safnast hafa saman á tiltölulega skömmum tíma og mynda í sameiningu sterkan málstað og röksemdir sem vart er hægt að véfengja. Landbúnaðurinn er einn af undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og skapar henni í senn öryggi, gæði og áþreifanleg verðmæti alla daga ársins. Þess vegna geta bændur borið höfuðið hátt, verið stoltir af framlagi sínu og gert skýlausar kröfur um að virðingin fyrir því endurspeglist meðal annars í afkomu þeirra.

Samhliða hinni jákvæðu athygli sem við bændur fáum þessa dagana eru gerðar til okkar ríkar kröfur um fagmennsku. Í þeim efnum skiptir afurðin sjálf auðvitað miklu máli en stórar áskoranir eru einnig á ýmsum öðrum sviðum frumframleiðslunnar. Við höfum ákveðið forskot á heimsvísu af landfræðilegum ástæðum en þau tækifæri fara öll forgörðum ef bændur leggja ekki sjálfir sitt af mörkum með því að nútímavæða hina ýmsu þætti búrekstursins eins og hverjum og einum er frekast unnt.

Tæmandi upptalning á nýjum viðmiðunum og keppikeflum sem bændur munu þurfa að takast á við á næstu árum kemst hér ekki fyrir. Stöðugar tækniframfarir og aukin þekking gerir það líka að verkum að listinn mun halda áfram að lengjast. Það er fagnaðarefni og gerir landbúnað morgundagsins bæði krefjandi og skemmtilegan.

Það verður fylgst með því hvernig við hámörkum nýtingu þess lands og jarðvegs sem okkur er treyst fyrir. Hvernig við umgöngumst vatnið af alúð, lágmörkum kolefnisspor framleiðslunnar, takmörkum skordýraeitur og lyfjagjafir, vökum yfir velferð og heilbrigði dýranna sem við ræktum, höldum plastnotkun í skefjum o.s.frv., o.s.frv. Við höfum fulla burði til þess að vera á þessum sviðum í allra fremstu röð á heimsvísu og ég held því hiklaust fram að þar séum við einmitt stödd í dag.

Á sama tíma er hins vegar ógerlegt að keppa í verði við ríkisstyrkta framleiðslu í löndum sem jafnvel gera mun minni kröfur um gæði framleiðsluferlanna. Til viðbótar skekkir margt annað samkeppnisstöðu okkar gagnvart nágrannaríkjunum, s.s. stærð markaðanna á hverjum stað, vaxtastig, launakostnaður og flutningsvegalengdir fyrir aðföng og afurðir. Íslenskir neytendur vilja sem betur fer engu að síður fyrsta flokks matvöru á samkeppnishæfu verði og eru reiðubúnir til þess að fjárfesta í slíkum aðgangi rétt eins og svo mörgu öðru sem við flokkum í reynd undir sjálfsögð mannréttindi.

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?
Lesendarýni 17. apríl 2024

Hvaða máli skiptir forseti Íslands fyrir bændur?

Hvaða máli skiptir embætti forseta Íslands fyrir bændur? Þessa spurningu fékk ég...

Beinin í garðinum
Lesendarýni 10. apríl 2024

Beinin í garðinum

Kirkjugarðar, sérstaklega gamlir kirkjugarðar, eru áhugaverðir staðir. Við leggj...

Merk starfsemi við Bodenvatn
Lesendarýni 5. apríl 2024

Merk starfsemi við Bodenvatn

Í vestanverðu Bodenvatni á landamærum Sviss, Þýskalands og Austurríkis er eyja m...

Við og sauðkindin
Lesendarýni 28. mars 2024

Við og sauðkindin

Sauðkindin hefur verið hluti af menningu okkar og gaf okkur margt af því sem þur...

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. fe...