Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“
Lesendarýni 27. mars 2024

„Stórborgarelítan hefur hunsað bændur of lengi“

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá MS.

Þannig mæltist Camillu Cavendish, dálkahöfundi Financial Times (FT), þann 24. febrúar sl. Þá voru aðeins 19 dagar síðan annar kollegi hennar hafði birt grein undir fyrirsögninni „Uppgangur landbúnaðarpopúlisma“.

Erna Bjarnadóttir.

Mótmæli bænda í fjölmörgum aðildarlöndum ESB á hækkunum á aðfangaverði, lækkunum á afurðaverði vegna afnáms ESB á tollum á landbúnaðarvörur frá Úkraínu, íþyngjandi regluverki, kolefnisgjöldum o.s.frv. höfðu leitt til umfangsmikilla mótmælaaðgerða. Samgöngur voru truflaðar í höfuðborgum tveggja stærstu aðildarlandanna, Berlín og París, og eggjum kastað í byggingar ESB í Póllandi svo dæmi séu nefnd. Skilaboðin til stórborgar-„elítunnar“ voru aldagömul og skýr: Ekki hunsa fólkið sem stritar á landinu til að framleiða matinn þinn.

Tengslarof við landsbyggðina?

Það er til vitnis um tengslarof stjórnmála leiðtoga og álitsgjafa að svo virðist sem aðeins fáir hafi séð þetta fyrir. En ríkisstjórnir sem vilja takast á við loftslagsbreytingar virðast ekki hafa hugsað til enda áhrif þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til eða eru boðaðar á landbúnað sem stendur frammi fyrir hækkandi framleiðslukostnaði á sama tíma og heimsmarkaðsverð á matvælum fer lækkandi.

Afleiðingarnar hafa birst með ýmsum hætti rekur Cavendish síðan. Hollenska ríkisstjórnin varð að hætta við bann við notkun köfnunarefnisáburðar eftir að stofnaður var í skyndi nýr stjórnmálaflokkur, Mótmælaflokkur bænda, en hann fékk 16 þingsæti í kosningum í Hollandi. Hún segir einnig örvæntingu ríkja í Brussel yfir því að róttækir hægrimenn notfæri sér þessi mál í kosningum til Evrópuþingsins í júní. Í Bretlandi hefur Rishi Sunak orðið fyrsti forsætisráðherrann til að ávarpa ársfund National Farmers Union, NFU, (Búnaðarþing) síðan árið 2008. Nokkur sæti íhaldsmanna á landsbyggðinni hafa þegar fallið til Frjálslyndra demókrata í aukakosningum og kannanir benda til þess að mun fleiri fylgi í kjölfarið.

Samræma þarf ólíkar áskoranir

Stjórnvöld í Evrópu, líkt og hér á landi, standa andspænis áskorun um að draga úr kolefnislosun samhliða væntingum um að viðhalda framleiðslu á ódýrum matvælum auk krafna frá borgaralegum náttúruverndarsinnum sem vilja taka land úr framleiðslu og endurheimta vistkerfi eins og það er kallað hér á landi, eða planta í það trjám.

Óttinn við að lífsviðurværi fjölda fólks sé í hættu virðist djúpstæður. Smábú í Evrópu eru að verða gjaldþrota. Meðalaldur í dreifbýli fer hækkandi og yngri kynslóðir velta því fyrir sér hvort þær ráði við sálrænt álag í atvinnugrein þar sem fjárhagsáhyggjur geta grafið undan andlegri heilsu. Í Frakklandi er tíðni sjálfsvíga 20% hærri meðal bænda en landsmeðaltalið.

Stríðið í Úkraínu hefur afhjúpað hversu mikilvæg eigin matvælaframleiðsla er. Er mögulega rétt að tala um aðgang að næringarríkum mat sem hluta af mikilvægum innviðum samfélaga okkar. Í ræðu fráfarandi forseta NFU á fyrrnefndum ársfundi, benti hún á að breskir landeigendur sem settu upp sólarorkuver fá vísitölutengdar greiðslur í 20 ár; en þeir sem rækta matvæli njóta ekki slíks munaðar.

Áskoranir af sama toga hér á landi

Allt eru þetta kunnugleg stef, ekki satt? Bændur og raunar sumir stjórnmálamenn líka vísa reglugerðardrögum um sjálfbæra landnýtingu í pappírstætarann og geðheilsa íslenskra bænda er komin í kastljós fjölmiðla. Dæmi af sama toga er áformuð Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár – Norður – Mýrar og Álftanes-Álftárós-Langárós, sem kynnt var landeigendum á svæðinu í vetur. Nái hún fram að ganga verður sem dæmi óheimilt að vera með skeljasandsnámu í landi jarðar á umræddu svæði. Skeljasandur er hins vegar ódýr innlend auðlind sem nýtist til að hækka sýrustig (pH-gildi) í jarðvegi ræktunarlands og stuðla þannig að betri nýtingu á áburði, bæta skilyrði fyrir ræktun uppskeru meiri og næringarríkari plantna en ella og auka þannig framleiðni lands. Enginn skilur þörfina á þessu, allavega ekki þeir sem búa á svæðinu, enda fátt um svör. Er hér, eins og svo víða annars staðar, verið að haka í box á plöggum sem koma hingað til lands í flugvélum frá ráðstefnum í fjarlægum löndum þar sem samþykkt er að land eigi að endurheimta undir hinum ýmsu formerkjum en enginn athugaði hvort eða hvaða þörf var á því áður en stigið var upp í vélina á Keflavíkurflugvelli.

Er landsbyggðin leikvöllur „stórborgarelítunnar“?

Það er bragð af þegar dálkahöfundur eins virtasta dagblaðs heims segir: „Í sífellt þéttbýlli heimi líta stórborgarstjórnmálastéttirnar á landsbyggðina sem leikvöll. Ferðahópar krefjast réttar til frjálsrar farar um land en um leið hefur aukning orðið á rusli á víð og dreif og stjórnlausir hundar ráðast á kindur.“ Og svo að lokum segir hún að efnaðir landeigendur taki land úr framleiðslu til að grænþvo þotulífsstíl sinn. Mögulega á það sama að einhverju leyti við hér á landi þar sem „borgarelítan“ fer margar ferðir utan á ári hverju og ætlast til að aflátsbréf þeirra séu framleidd í dreifbýlinu með fjölbreyttum kröfum og kvöðum á þau sem þar búa og yrkja landið.

Undanþágur búvörulaga og staða bænda
Lesendarýni 16. maí 2024

Undanþágur búvörulaga og staða bænda

Ágætu bændur. Rétt fyrir páska voru samþykktar á Alþingi breytingar á búvörulögu...

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf
Lesendarýni 10. maí 2024

Endurheimt vistkerfi á landi og ferskvatnslíf

Með vorinu vaknar náttúran til lífs enn á ný og fólk flykkist út til að njóta he...

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði
Lesendarýni 9. maí 2024

Kjósum forseta með þekkingu á landbúnaði

Þann 1. júní nk. fara fram forsetakosningar og ljóst að kjósendur geta valið á m...

Skattaívilnanir í skógrækt
Lesendarýni 8. maí 2024

Skattaívilnanir í skógrækt

Í marsmánuði var hin árlega fagráðstefna Skógræktar á Íslandi haldin.

Dásamlega íslenska sveitin
Lesendarýni 6. maí 2024

Dásamlega íslenska sveitin

Þegar maður kemst á miðjan aldur, þá staldrar maður aðeins við og veltir fyrir s...

Hafa skal það sem sannara reynist
Lesendarýni 1. maí 2024

Hafa skal það sem sannara reynist

Í Bændablaðinu 11. apríl sl. er heilsíðuviðtal við hjónin á Syðri-Fljótum í Meða...

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?
Lesendarýni 29. apríl 2024

Mótmæli bænda í ESB: hvað býr að baki?

Undanfarna mánuði hafa bændur í Evrópu efnt til mikilla mótmæla um alla heimsálf...

Ósonlagið er klárt, hvað næst?
Lesendarýni 23. apríl 2024

Ósonlagið er klárt, hvað næst?

Dóttir mín kom heim um daginn og hafði verulegar áhyggjur. Jörðin væri víst að e...