Stjörnuspá 24. apríl - 16. maí
Fréttir 24. apríl 2024

Stjörnuspá 24. apríl - 16. maí

Vatnsberinn hefur lúmskt gaman af hversu mikil áhrif hann hefur þessa dagana bæði í vinnu og einkalífi. Hann ætti í kjölfarið að nýta sér áfram afleiðingar þessa og taka skref í átt til framþróunar og heilla. Ferðalög liggja í loftinu og ætti vatnsberinn að fara sem víðast. Happatölur 8, 16, 22.

Fiskurinn er ekki allra um þessar mundir og finnur hann áhrif tunglstöðunnar betur en margir. Hann þarf því að vanda sig í samskiptum og ekki taka mikilvægar eða afdrifaríkar ákvarðanir næstu daga. Ró og gleði í hjarta fara þó vaxandi og halda því áfram út árið. Happatölur 5, 15, 82.

Hrúturinn hefur undanfarið staðið í breytingum, bæði er kemur að búsetu og innra sálarlífi. Eitthvert babb kom í bátinn þegar hrúturinn átti síst von á og þurfti hann að snarsnúa við sinni fyrrum sannfæringu í vissu máli. Gönguferðir og hreint loft eru honum til góða. Happatölur 42, 15, 62.

Nautið bíður óþreyjufullt eftir að vori bæði í hug og hjarta. Einnig á það bágt með að taka skref í átt til eigin betrunar en ætti að muna að hlutirnir gerast víst ekki af sjálfu sér. Bið verður enn á flestum vígstöðvum nautsins en í lok mánaðar fara hlutirnir að gerast. Happatölur 3, 12, 32.

Tvíburinn fer víða þessa dagana og er viss um að honum séu allir vegir færir. Hann verður að gæta þess að fara ekki fram úr sér eða móðga einhvern með háttalagi sínu og muna að taka tíma til að virkja innri ró. Það er öllum til góðs, bæði honum sjálfum og þeim sem eru í kringum hann. Happatölur 48, 62, 91.

Krabbinn verður að gæta þess að láta hlutina ekki stíga sér til höfuðs og vera nærgætnari við fólkið í kringum sig. Dramb getur orðið honum að falli ef hann breytir ekki af venjum sínum og árangur þess sem hann vill taka sér fyrir hendur öðlast minna vægi í augum annarra. Happatölur 2, 10, 8.

Ljónið á í einhverjum vandræðum þessa dagana um stefnu sína í lífinu. Þó það virðist hafa skýra hugsjón, er eitthvað að rugga bátnum, hvort sem það er raunveruleikinn í sinni bláköldustu mynd eða hugarórar. Velta skal fyrir sér öllum mögulegum útkomum áður en lengra er haldið.
Happatölur 28, 17, 52.

Meyjan vill hafa alla góða og þolir illa bresti mannanna. Sjálf er hún vanalegast hugljúfi sinna nánustu en upp úr getur þó gosið ef mikið er á hana lagt. Þessar fyrstu vikur ársins hafa verið henni erfiðar en fljótlega fer lífið að leika við hana aftur. Og þá verður leikið svo um munar. Happatölur 13, 66, 51.

Vogin þarf að vera duglegri að opna sig tilfinningalega og varast að setja á svið leikþætti. Farið getur svo að hún viti ekki lengur muninn á leik og raunveruleika, en það er verst fyrir hana sjálfa. Vogin þarf að æfa sig í að vera sjálfri sér samkvæm og óhrædd við alla tilfinningasemi. Happatölur 5, 68, 12.

Sporðdrekinn dregur fæturna í vissu máli sem snertir reyndar fleiri en hann sjálfan. Hann þarf að gyrða í brók og gera sér grein fyrir því hvernig hegðan hans getur orðið öðrum til miska og þá hvernig betur megi fara. Nú er góður tími til að endurvekja gamla hugsjón og gera bætur á. Happatölur 8, 71, 69.

Bogmaðurinn hefur ekki mikla þolinmæði þessa dagana og hefur það bitnað á hans nánustu. Hann ætti að taka sig taki og anda dýpra en ella næstu daga enda óvænt lán fram undan ef hann tekur þá ákvörðun. Óvænt ferðalag er í kortunum og ferðafélagarnir honum til mikillar hamingju. Happatölur 98, 32, 45.

Steingeitin lætur hugann reika til gamalla tíma og veltir fyrir sér hvað betur hefði mátt fara í málefnum hjartans. Hún er þó þrjósk og sérhlífin að upplagi og sér sjaldnast skóginn fyrir trjánum en ætti að æfa sig í að horfa augum mildinnar á fólkið í kringum sig. Enginn er fullkominn og allra síst hún sjálf. Happatölur 13, 47, 82.