Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýbúin að koma sér fyrir á nýrri skrifstofu í matvælaráðuneytinu.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýbúin að koma sér fyrir á nýrri skrifstofu í matvælaráðuneytinu.
Mynd / ál
Fréttir 30. apríl 2024

Engir hveitibrauðsdagar

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Nýi matvælaráðherrann, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, segir of stutt vera eftir af kjörtímabilinu til að kollsteypa stefnunni. Nú stendur yfir vinna við frumvarp um lagareldi og er hún spennt fyrir áframhaldandi baráttu gegn riðu.

Bjarkey tók við matvælaráðuneytinu þann 10. apríl síðastliðinn. Hún byrjaði sinn pólitíska feril sem formaður svæðisfélags Vinstri grænna (VG) á Ólafsfirði árið 2003 og síðar kjördæmisráðs VG í Norðausturkjördæmi. Hún var bæjarfulltrúi á Ólafsfirði frá 2006 til 2013 og hefur verið þingmaður frá 2013. Bjarkey var formaður þingflokks VG frá 2017 til 2021. Þá hefur hún setið í ýmsum þingnefndum og verið formaður í tveimur.

Hið nýja hlutverk leggst vel í hana og segir hún metnaðinn hafa legið í þessa átt. „Þegar manni er hent beint út í djúpu laugina og það eru engir hveitibrauðsdagar – ekki tíu mínútur einu sinni – þá kemur þessi reynsla sér ágætlega,“ segir Bjarkey. Þar vísar hún til þess að hún þurfti strax að standa af sér mikla gagnrýni vegna nýsamþykktra búvörulaga, sem verður vikið að hér að neðan.

Heildarfrumvarp um lagareldi

Bjarkey var á fjórða degi sem ráðherra þegar blaðamaður ræddi við hana og sagðist hún vera enn í starfskynningu í ráðuneytinu. Nú sé hún að kynna sér hvað sé helst á döfinni, ásamt því sem það þurfi að afgreiða mál sem séu ekki hápólitísk, en nauðsynleg til að gangverkið virki. Ekki megi búast við miklum kollsteypum í hennar ráðherratíð, enda sé ekki mikið eftir af kjörtímabilinu.

Aðspurð um stærstu málin sem séu á dagskrá nefnir Bjarkey heildarfrumvarp um lagareldi sem hefur verið lagt fyrir þingið. Það sé gríðarlega stórt og mikilvægt og telur Bjarkey það til þess fallið að ná eins mikilli sátt og hægt er í eins umdeildri atvinnugrein og fiskeldi í sjó er.

Frumvarpið feli í sér talsvert miklar breytingar sem séu meðal annars fólgnar í auknu eftirliti, ívilnunum og íþyngjandi aðgerðum ef hlutirnir eru ekki gerðir rétt. „Við erum að reyna að ná utan um sleppingar, lúsina og aðra sjúkdóma með því að hvetja þá sem að þessu standa til að gera betur.“ Hún telur að sjálf greinin geti haft hag af þessu ef bættir starfshættir leiði til betra umtals.

Fyrir þinginu liggur nýtt frumvarp um lagareldi. Bjarkey telur það til þess fallið að skapa eins mikla sátt og hægt er. Mynd frá Patreksfirði.

Jarðræktarmiðstöð og lífræn ræktun

Málefni landbúnaðarins sem eru á dagskrá séu meðal annars áframhaldandi barátta við riðu í sauðfé og efling kornræktar. Þó jarðræktarmiðstöðin á Hvanneyri heyri undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið vonast Bjarkey til að hægt verði að fylgja uppbyggingu hennar eftir, enda sé gert ráð fyrir miðstöðinni í fjármálaáætlun.

Þá eru komin drög að aðgerðaáætlun um lífræna ræktun sem Bjarkey segist vilja fylgja eftir, en þar sé stefnt að því að gera enn betur í þessum málum en verið hefur. Hún eigi eftir að setjast niður með sérfræðingum ráðuneytisins til að fá ábendingar um hvar sé hægt að hefjast handa út frá aðgerðaáætluninni.

Sat í atvinnuveganefnd

Bjarkey sat í atvinnuveganefnd áður en hún færði sig yfir í matvælaráðuneytið. Aðspurð út í þá gagnrýni á að það hafi verið eðlisbreyting á frumvarpi til nýrra búvörulaga í meðförum nefndarinnar, segir hún að í umsögnum um frumvarpið og í ábendingum þeirra sem mættu á fund nefndarinnar, hafi verið gagnrýnt að lögin myndu einungis ná yfir hvíta kjötið. Það myndi því ekki gagnast þeim sem þyrftu helst á því að halda, það er sauðfjárrækt og nautgripaframleiðslu.

Ákveðið hafi verið að taka þann hóp inn og hafi nefndin notið leiðsagnar þingsins til að málsmeðferðin gæti verið með þeim hætti að það þyrfti ekki að smíða nýtt frumvarp. Hún ætli ekki að draga í efa að það sé misræmi í nefndarálitstextanum og lagatextanum, en hún hafi sjálf gengið út frá því að aðgerðin væri fyrst og fremst til að styrkja bændur og neytendur.

Endurskoðunarákvæði á búvörulögum

Aðspurð hvort það kæmi til greina að endurskoða lögin strax ef sú gagnrýni sem hefur verið nefnd raungerist, það er að breytingarnar leiði til hækkaðs verðs fyrir neytendur og lægra afurðaverðs fyrir bændur, segir Bjarkey það hlutverk Alþingis að bregðast við því, ekki ráðherra.

Í lögunum sé endurskoðunarákvæði þar sem segir að eftir fjögur ár eigi að meta hvort lögin hafi náð markmiðum sínum, það er að bæta hag bænda og neytenda með því að framleiðendurnir nái hagræðingu.

Þá sé henni ekki kunnugt um að lögfræðingar á vegum afurðastöðvanna hafi verið með óeðlileg afskipti af skrifum laganna. Þeir hafi komið á fund atvinnuveganefndar og sögðu sína skoðun á því sem var til umfjöllunar, eins og aðrir aðilar sem komu fyrir nefndina.

Aðhald á málefnasviðinu

Á fjármálaáætlun er hægt að sjá áætlaðan niðurskurð til landbúnaðarmála um rúmar 200 milljónir. Bjarkey segir að það sé aðhald á málefnasviðinu, en hluta skýringarinnar einnig að oft séu veitt tímabundin fjárframlög sem séu alltaf veitt til eins árs í senn og séu umfram fjármálaáætlun. Því myndist oft misræmi á milli þess sem fjármálaráðherra leggur fram og hver hin endanlega tala verður.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...